Kynning á Stillingar.is

Ráðstefnan: Aðgengi á Netinu: Hvar erum við stödd? 14. nóvember 2006


Halló. Ég heiti Már Örlygsson. Ég vinn hjá fyrirtækinu Hugsmiðunni.

Undanfarin fimm ár höfum við, að öðrum hugbúnaðarfyrirtækjum ólöstuðum, leitt áfram íslenska markaðinn í hönnun og smíði aðgengilegra heimasíðna og veflausna.

Síðan við byrjuðum hefur hefur sem betur fer orðið mikil vitundarvakning um mikilvægi aðgengis á vefnum hérlendis, eins og t.d. þessi ráðstefna (og sú síðasta) ber skýrt merki.


Við hjá Hugsmiðjunni erum þessa dagana að kynna glænýtt fyrirbæri: samfélagsþjónustuna Stillingar.is [www.stillingar.is]

Stillingar.is er einföld og þægileg vef-þjónusta fyrir eigendur vefsvæða sem vilja koma til móts við þarfir fólks sem á erfitt með að lesa, t.d. vegna lesblindu, sjóntruflana eða sjónskerðingar, og þarf að geta valið lita- og letursamsetningu sem hentar þeim.

(Hingað til hafa einstaka vefsvæði (t.d. Kópavogsbær www.kopavogur.is og Blindrabókasafnið www.bbi.is) verið að sinna þessum hópi, hvert í sínu horni, hvert með sínu nefi, og stundum af vanefnum.)


En hvernig virka Stillingar.is?

Fólk fer á síðuna "Mínar Stillingar" á heimasíðu Stillingar.is og tilgreinir þar hvaða samsetningu leturgerðar, texta- og bakgrunnslita, línubils, o.fl. því finnst þægilegast að lesa.

Öll vefsvæði sem nýta sér þjónustu Stillingar.is sækja svo, með sjálfvirkum hætti, þessar upplýsingar úr miðlægum brunni Stillingar.is, og því þarf hver manneskja bara að velja sína liti og leturgerðir einu sinni.

En það er líklega best að sýna bara hvernig þetta virkar...


Ég ætla að byrja að fara á heimasíðu Félagsmálaráðuneytisins www.felagsmalaraduneyti.is

Smelli á hnappinn "Nota Mínar Stillingar" lengst til hægri í síðu-hausnum.

Af því ég hef ekki tilgreint "mínar stillingar" áður (á þessari tölvu), þá flyst ég sjálfkrafa inn á vefsvæði Stillingar.is og þarf að velja mér lita- og letursamsetningu.

Ég geri það [eitthvað samsull lita og leturs] og smelli á "Vista mínar stillingar".

Og viti menn ég er sendur sjálfkrafa aftur inn á sömu síðu á vef Félagsmálaráðuneytisins og ég var á áðan - og nú með letur- og litasamsetningunni sem ég valdi áðan.


Vindum okkur nú yfir á aðra síðu - heimasíðu Öryrkjabandalags Íslands www.obi.is.

Efst á henni er sams konar "Nota Mínar Stillingar" hnappur, og ég smelli á hann.

Af því núna er ég búinn að tilgreina "mínar stillingar", þá er ég ekki spurður hverjar þær eru, heldur birtist vefsíða ÖBÍ strax í sömu litum og letri og ég valdi áðan.

Efst á síðunni eru núna tveir hnappar: "Venjulegt útlit síðunnar" og "Stillingar". Sá fyrri slekkur á mínum stillingum, með því að smella á "Stillingar" fer ég inn á stillingasíðuna "Mínar Stillingar" og get skipt um liti og breytt letrinu.

...og þegar ég "Vista mínar stillingar" breytist ÖBÍ síðan í takt við það.

Nú ætla ég að hoppa aftur á síðu Félagsmálaráðuneytisins, og smella á "Reload" þar ... og viti menn hún breytist líka í takt við nýju stillingarnar mínar.


Það er vert að taka fram að þótt heimasíður Félagsmálaráðuneytisins og Öryrkjabandalagsins séu báðar settar upp í vefumsjónarkerfi frá Hugsmiðjunni og líti svipað út þegar kveikt er á mínum stillingum, þá er þessi virkni engan vegin bundin við vefi sem Hugsmiðjan býr til, og framsetningin enganvegin takmörkuð við þetta útlit.

Hvaða vefsvæði sem er getur nýtt sér Mínar stillingar, og hagað grunn framsetningu efnisins eftir eigin höfði.

Hugsmiðjan býður að sjálfssögðu þeim sem vilja ráðgjöf og tæknilega aðstoð, en á heimasíðu Stillingar.is eru jafnframt ítarlegar leiðbeiningar sem gera umsjónarmönnum vefsvæða kleyft að nýta sér "Mínar Stillingar" án beinnar aðkomu Hugsmiðjunnar.


Skoðum t.d. vefsíðuna borgar.undraland.com.

Þetta er ofur venjuleg bloggsíða einstaklings, sett upp í vinsælu erlendu blogg-kerfi sem heitir "Word-Press".

Eigandinn er Borgar Þorsteinsson kollegi minn hjá Hugsmiðjunni, en hann tók sig til, krukkaði aðeins í Word-Press kerfinu og forritaði sína eigin tenginu við Stillingar.is.

Ég smelli á "Use my settings" hnappinn hans efst á síðunni - og viti menn - bloggsíðan tekur núna mark á mínum stillingum!

Fyrir þá bloggara sem eru ekki jafn klárir að forrita og Borgar, þá bjóðum við upp á einfaldan "Javascript hnapp" sem er hægt að líma inn á hvaða bloggsíðu sem er.


Skoðum nú að lokum heimasíðu Sjá ehf. www.sja.is - af því þær eru svo góðar að standa að þessari samkomu í dag.

Þær hafa einmitt ákveðið að nýta sér einfalda "Javascript hnappinn" sem ég minntist á.

Með því einu að líma örstuttan Javascript kóða á hentugan stað á síðunni þeirra þá birtist þessi fíni hnappur "Mínar stillingar".

Ég smelli á hann og fæ enn og aftur litina og letrið sem ég valdi áðan. Javascript hnappurinn veldur því að við greinum örlítið hökt í síðunni þegar hún skiptir yfir í mínar stillingar, í hvert skipti sem við flettum á nýja síðu, en að öðru leyti virkar hann nákvæmlega eins og "vefþjóns lausnirnar" sem við sáum á síðunum á undan.

Að endingu skulum við smella á hnappinn "Venjulegt útlit vefsins", svona rétt til að taka til eftir okkur.


Samantekt á helstu kostum Stillingar.is:

  1. Ókeypis fyrir vefsvæði einstaklinga og smærri aðila.

  2. Tæknilegur sveigjanleiki - Völdin í höndum eigenda vefsvæðanna.

  3. Einnig í boði: SSL öryggislyklar og "prívat" lén.

  4. Fólk þarf ekki að tilgreina óskir sínar aftur og aftur og aftur. (Að sjálfsögðu ókeypis.)

  5. Vandað, staðlað viðmót sem lærist fljótt að nota.

  6. Stórlækkaður þróunarkostnaður fyrir eigendur vefsvæða.

  7. Einfaldasta uppsetningin ("Javascript hnappurinn") www.stillingar.is/vefstjorar/jsbutton/ tengir hvaða vefsvæði sem er við "Mínar Stillingar" á innan við 5 mínútum.