Algengar spurningar tæknilegs eðlis

Þarf mitt félag/fyrirtæki að greiða fyrir að nota Stillingar.is?

Grunnreglan er sú að einstaklingar, einyrkjar, góðgerðasamtök og smærri félagasamtök þurfa ekki að greiða fyrir að nota þjónustu Stillingar.is.

Ef þér finnst óljóst hvort vefsvæðið þitt fellur undir þessa skilgreiningu, eða vilt sækja um sérstaka undanþágu, hafðu þá samband við stillingar@hugsmidjan.is og svörum þér um hæl eftir að við höfum lagt mat á þitt tilfelli.

Þarf að skrá vefsvæðið mitt til að geta tengst þjónustunni?

Nei, það er öllum frjálst að koma upp tengingu við Stillingar.is án þess að skrá sig á nokkurn hátt. Eftir 30 daga reynslutíma er haft samband við þá aðila sem þurfa að greiða fyrir að nota þjónustuna.

Við hvern hef ég samband til að tengja mitt vefsvæði við þjónustuna?

Það er best að hafa samband við þann aðila sem setti upp vefinn. Viðkomandi á að geta komið upp tengingunni hjálparlaust, en getur haft samband við Hugsmiðjuna ef þörf er á frekari leiðbeiningum.

Sjá tæknilega skjölun varðandi frekari upplýsingar.

Hversu miklu ræð ég um það hvernig mitt vefsvæði birtist?

Þú hefur fullt vald yfir því hvernig þitt vefsvæði tekur mið af óskum notenda.

Útbúa þarf stílblöð sem passa vefsvæðinu en taka jafnframt mið af þeim stillingum sem hver og einn notandi hefur valið. Þetta getur þinn þjónustuaðili séð um.

Til eru dæmi um möguleika í aðlögun útlits.

Ég setti inn javascript hnappinn á vefinn minn og allir takkar birtast á ensku. Hvers vegna?

Scriptið leitar að því á hvaða tungumáli síðan er, ef íslenska er ekki tilgreind í HTML kóða síðunnar notar það enskar yfirskriftir. Yfirleitt felst lausnin í því að tilgreina tungumálið í <html> markinu fremst í HTML skjalinu.

HTML dæmi: <html lang="is">

XHTML dæmi: <html xmlns="http://www.w3.org/1999/xhtml" xml:lang="is" lang="is">

Hvar fæ ég aðstoð við uppsetningu á Stillingar.is á vefsvæðinu mínu?

Við kappkostum að hafa sem skýrastar upplýsingar um uppsetningar hér á vefnum, en ef þörf er á meiri ráðgjöf eða forritunarvinnu bendum við á að hafa samband við stillingar@hugsmidjan.is og fá verðtilboð.

Þegar ég tengi vefsvæðið mitt Stillingar.is lítur allt hálf undarlega út. Hvað veldur?

Það er margt sem getur valdið, t.d. geta síður markaðar gömlum, úreltum HTML vinnuaðferðum virkað verr en aðrar. Eins er algeng skýring að dulin villa í HTML kóðun síðunnar þinnar sé að gera vart við sig. Prófaðu að gera "view source" og skoða kóðann þinn, og yfirfara síðuna með yfirlestrartólinu frá W3C.

Ef þú telur fullreynt að síðan þín sé í lagi, og hefur kynnt þér til hlítar allar leiðbeiningatextana hér á Stillingar.is, getur þú haft samband við stillingar@hugsmidjan.is og látið okkur kíkja á málið. Ef orsökin er ekki augljós villa af okkar hálfu, gerum við þér sanngjarnt verðtilboð í frekari bilanagreiningarvinnu.

Hvað gerist þegar 30 daga reynslutíma lýkur?

Eftir að vefsvæði sem ekki uppfylla skilyrði fyrir ókeypis notkun hafa notað þjónustu Stillingar.is í 30 daga er haft samband við viðkomandi og athugað hvort áhugi á þjónustusamningi sé fyrir hendi. Ef svo er ekki er lokað fyrir tengingar frá viðkomandi vefsvæði.

Ef lokað hefur verið á tengingar eftir 30 daga, er hægt að opna fyrir þær aftur?

Hafið samband við stillingar@hugsmidjan.is og um leið og gengið hefur verið frá þjónustusamningi, verður opnað aftur á tengingar frá viðkomandi vefsvæði.

Nánar

Sjá spurningar og svör fyrir notendur.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica